Umhverfið

Umhverfið


Umhverfisstefna


Vistvæn saman

BYKO hefur töluverð umhverfisáhrif í sinni eigin starfsemi. Mest eru umhverfisáhrifin þó í gegnum þær vörur eða þjónustu sem fyrirtækið býður upp á. Fyrirtækinu ber því skylda að leggja áherslu á vöruframboðið ekki síður en eigin starfsemi. Umhverfisstefna BYKO hefur þrjú meginþemu, vistvænt vöruframboð, fræðslu til viðskiptavina og innra starf.

Umhverfisstefnuna er að finna á heimasíðu BYKO ásamt ýmis konar fræðslu um vistvæn byggingarefni og vöruframboð BYKO á þeim, þýðingu umhverfismerkja, upplýsingar um vottunarkerfin BREEAM og Svaninn og upplýsingar um vottað timbur. Við skilgreiningu á vistvænu vöruframboði BYKO komu upp ákveðin álitamál sem snerta rétta upplýsingagjöf til viðskiptavina. Það er hluti af skyldu okkar að fræða viðskiptavini um umhverfismál, sú fræðsla verður samtímis að vera rétt og hlutlaus. Álitamálin fjalla annars vegar um það hvernig hægt er að segja að vara sé leyfileg í Svansvottað hús án þess að varan sé sjálf Svansvottuð og hins vegar hvort og þá hvernig skuli vinna með rekjanleika svo hægt er að staðfesta að timbur komi frá sjálfbærri skógrækt.

Umhverfisstefnu BYKO má skoða í heild sinni hér

Vistvænt vöruframboð


Vistvænar vörur

Í gegnum umhverfisstefnu fyrirtækisins leggur BYKO áherslu á að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á vistvænt vöruframboð í öllum vöruflokkum. Samhliða þessu hefur verið lögð mikil áhersla á að skapa þekkingu á vistvottunarkerfum fyrir byggingar til þess að mæta auknum kröfum markaðarins, veita ráðgjöf og aðstoða viðskiptavini sem vilja byggja vistvænt. 

BYKO getur boðið viðskiptavinum sínum vörur í öllum vöruflokkum sem henta til bygginga sem votta á samkvæmt Svaninum, BREEAM og LEED vottunarkerfunum ásamt því að veita ráðgjöf og koma snemma að hönnunarferlinu með þekkingu á hentugum lausnum fyrir vistvænar byggingar. 

BYKO ber ábyrgð á að koma upplýsingum til neytenda á framfæri, á heimasíðu BYKO má nú finna hluta af þeim vörum sem bera Svansvottun eða eru leyfilegar í Svansvottaðar byggingar ásamt þeim vörum sem henta í BREEAM vottunarferlið. Þær eru að finna undir flokknum “Byggingarvörur” þar sem búið er að raða saman öllum vottuðum vörum undir heitið “Grænni byggingar” til að auðvelda aðgengi viðskiptavina. Þegar smellt er á vöru má finna hvort varan sé vottuð, rekjanleg eða beri önnur gögn sem nýtast í viðkomandi vistvottunarferli. Þar má ýmist finna EPD umhverfisyfirlýsingu, VOC vottun eða FSC vottun.

Unnið hefur verið að því að gera þessar umhverfisupplýsingar aðgengilegar á vef og mun sú vinna  halda áfram af krafti ásamt því að auka sýnileika þeirra í verslunum til að einfalda viðskiptavinum  val og vistvænum valkostum, hlutverk BYKO er að vera skýr valkostur viðskiptavina þegar kemur að vistvænum lausnum. Sjá hér.     

Rekjanleiki timburs

Til þess að timbur sé samþykkt í Svansvottaðar byggingar og uppfylli skilyrði til samþykktar í BREEAM og LEED vottunarkerfin þarf það að koma úr sjálfbærri skógrækt og hafa rekjanleika. Vottanirnar sem staðfesta slíkt eru FSC eða Forest Stewardship Council og PEFC eða Programme for the Endorsement of Forest Certification.

Þetta þýðir í raun að skógræktin sem timbrið kemur frá þarf að fylgja skilgreindum viðmiðum um sjálfbærni við ræktun og meðhöndlun trjáa ásamt því að allir sem meðhöndla timbrið frá skógrækt að endastöð hafi rekjanleikavottun. Vottun á rekjanleika felur í sér að allir milliliðir í virðiskeðjunni eru vottaðir og þannig sé hægt að rekja uppruna timbursins alla leið frá ræktun til söluaðila. 

Allt timbur sem BYKO kaupir kemur úr sjálfbærri skógrækt og er með rekjanleika vottun og hingað til hefur verið í gildi undanþága til notkunar í Svansvottun þrátt fyrir að BYKO sé ekki með rekjanleikavottun. Nú hefur sú undanþága hins vegar verið felld úr gildi og því þarf BYKO að sýna fram á kvittanir sem staðfesta hvaðan timbrið kemur til að leyfilegt sé að nýta það í vottaðar byggingar.

Til þess að geta uppfyllt skilyrði vottunarkerfa á fullnægjandi hátt þarf BYKO að fá Chain of Custody vottun, þ.e. rekjanleikavottun sem hægt er að fá með ítarlegri úttekt verkferla og úrbótum sé þeirra þörf. Án þessarar vottunar er BYKO að kaupa inn FSC/PEFC vottað timbur en getur ekki sagt að fyrirtækið selji vottað timbur þar sem rekjanleikakeðjan slitnar í vöruhúsi BYKO. Því hefur verið farið af stað í það verkefni að fá fyrirtækið vottað, verkefni sem hófst í lok árs 2022 og stefnt er á að ljúki á árinu 2023. 

Vistvottunarkerfi


Meginmarkmið Svansvottunar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu á framkvæmdartíma sem og þeirra sem nota bygginguna eftir að hún er tekin í notkun. Kröfurnar ná einnig til gæðastjórnunar á verkstað, en skýr stýring á umhverfisþáttum og gæðastjórnun helst oft í hendur.Þær vörur sem eru Svansvottaðar eru sjálfkrafa samþykktar í bygginguna, en aðrar bygginga- og efnavörur þurfa að uppfylla þær lágmarkskröfur að innihalda ekki efni sem eru skilgreind sem krabbameinsvaldandi, geta valdið erfðabreytingum eða haft áhrif á starfsemi innkirtla.

BYKO býður viðskiptavinum sínum ráðgjöf þegar kemur að efnisvali fyrir Svansvottaðar byggingar ásamt því að bjóða gott úrval af leyfilegum og vottuðum vörum í öllum vöruflokkum. Starfsmenn fyrirtækisins geta einnig aðstoðað viðskiptavini með því að kalla eftir gögnum frá framleiðendum og senda inn til Umhverfisstofnunar til að óska eftir efnissamþykktum.

Munurinn á milli vottaðra og leyfilegra vara er eftirfarandi:

  • Umhverfisvottun nær yfir allan líftíma vörunnar, framleiðslu, efnainnihald, notkun og förgun.
  • Leyfilegar vörur ná eingöngu yfir efnainnihald vörunnar



BYKO hefur komið að nokkrum verkefnum um Svansvottaðar framkvæmdir, fyrst árið 2017 þegar fyrsta Svansvottaða einbýlishúsið var byggt. Við þátttöku í verkefninu skapaðist dýrmætur lærdómur sem nýttur hefur verið áfram í fleiri verkefni, bæði samstarfsverkefni og við ráðgjöf til viðskiptavina. Árið 2020 hófst svo samstarf við Visthönnun sem reisir Svansvottað einbýlishús í Hafnarfirði, það hús er byggt úr CLT einingum og rík áhersla lögð á að sem mest af efninu sé vottað, áætlað er að því verkefni ljúki á árinu 2023. Ný reynsla bættist svo við þegar farið var í samstarf við Arkís arkitekta um Svansvottaðar endurbætur á eldra húsnæði, þeim framkvæmdum lauk á árinu 2022.

www.visthus.is

www.visthonnun.is

BREEAM vottun hefur verið til staðar á Íslandi í þónokkurn tíma og fylgja nýbyggingar hér á landi alþjóðlega staðli vottunarkerfisins þar sem það hefur ekki verið aðlagað að íslandi sérstaklega. Kerfið er eitt elsta og þekktasta vistvottunarkerfi í heimi fyrir byggingar og nær það yfir árangursmat á hönnun, verktíma og rekstrartíma bygginga þar sem tekið er tillit til fjölmargra umhverfis-þátta, allt frá vistfræði til orkunýtni. 

BREEAM tekur á fjölmörgum þáttum er varða umhverfi og sjálfbærni og leiðir eigendur, hönnuði og verktaka inn á umhverfisvænni brautir og stuðlar ekki einungis að því að byggingar verði umhverfisvænni heldur einnig hagkvæmari í rekstri. Stjórnunarkröfur BREEAM hafa ýtt undir ný vinnubrögð í hönnunarferlinu, á verkstað sem og við afhendingu bygginganna og getur það verklag aukið skilvirkni og minnkað sóun yfir allt vistferli byggingarinnar.

Ábyrgð BYKO liggur fyrst og fremst í byggingarefnaflokknum þó sá flokkur skarist vissulega inn í ýmsa aðra flokka. BREEAM gefur hærri einkunn fyrir byggingar þar sem gengið er lengra en reglugerðir kveða á um þegar kemur að árangri í umhverfismálum, þægindum og heilsufarslegum ávinningi notenda. Þegar stig eru sótt í byggingarefnaflokkinn þarf að sanna umhverfiseiginleika allra meginefna sem notuð eru í bygginguna með gögnum. Þessi gögn eru mismunandi eftir eðli efnisins en þurfa þó öll að uppfylla það skilyrði að vera vottuð af  utanaðkomandi þriðja aðila.

FSC eða PEFC vottun þarf að vera til staðar á öllu timbri, þetta á við um allar timburvörur og merkir það að timbrið sem notað er í viðkomandi vöru komi úr sjálfbærri skógrækt með rekjanleika.

EPD eða umhverfisyfirlýsing á við um önnur efni sem notuð eru í bygginguna t.d. einangrun, plötur, klæðningar, ýmsa efnavöru og fleira. Það er skylda í BREEAM vottun að skila inn svona blöðum fyrir að minnsta kosti 5 mismunandi vörur, þessar vörur þurfa að vera úr mismunandi vöruflokkum en þannig er verið að tryggja að vistvænar vörur séu í meirihluta byggingarinnar. Auka stig er svo hægt að fá fyrir nýsköpun ef útveguð eru 10 eða fleiri EPD blöð í mismunandi flokkum.

Að lokum eru það VOC skjöl eða gögn sem varða lífræn leysiefni í vörum, þetta á við um alla efnavöru, hvort sem það er efnavara í samsettri vöru eins og lím í spónaplötum eða efnavara líkt og kítti eða annað slíkt, þessi vottun þarf einnig að vera staðfest af þriðja aðila.


Mikil aukning hefur verið í BREEAM vottunum undanfarið eftir að ríki og sveitarfélög hófu að gera kröfur um slíkt í nýbyggingum og framkvæmdum á þeirra vegum. BYKO hefur starfandi vottaðan sérfræðing, BREEAM Certified Associate sem jafnframt er að mennta sig enn frekar í BREEAM kerfinu sem matsaðili eða BREEAM Certified Assessor og mun því námi ljúka á árinu 2023.


Nýjar vottaðar höfuðstöðvar BYKO

Til þess að öðlast enn meiri þekkingu á virkni BREEAM vottunarkerfisins og ferlinu sem fylgir slíkri vottun var tekin ákvörðun um að nýjar höfuðstöðvar BYKO á Breiddarsvæðinu yrðu  vottaðar BREEAM Excellent. Í byggingu er 5 hæða hús við hlið Timburverslunar sem hýsa mun sýningarsal timbur- og sérlausna ásamt skrifstofum og þar munu móðurfélagið Norvik ásamt Smáragarði einnig hafa aðsetur.

Kjallari og lyftuhús byggingarinnar verður steypt, gólf og veggir úr krosslímdum timbureiningum og önnur efni eru rýnd með tilliti til krafna BREEAM ásamt því að lýsing og loftræsting er hönnuð í takt við kröfur BREEAM. 

LEED vottunarkerfið er mjög sambærilegt BREEAM, byggir á sömu hugmyndafræði og sambærilegum matsþáttum en þeir hafa þó aðeins öðruvísi vægi. Þannig er mikið lagt upp úr staðsetningu, þ.e. að byggt sé við þegar skipulagt svæði þar sem allir innviðir eru til staðar líkt og gatnakerfi, göngu og hjólreiðastígar, öll grunnþjónusta sé í göngufæri, gróður skýli gangandi og hjólandi fyrir veðri og vindum ásamt því að lágmarka meint sólarljós á malbik til að sporna við óþarfa hitun frá malbikinu. Annað sem LEED gerir ríkar kröfur um er að endurbyggja frekar en að rífa og byggja frá grunni og fást auka stig fyrir það að byggja á svæðum sem eru í niðurníðslu. Einnig er rík krafa á orkusparnað og þar er mikið lagt upp úr hönnunarþáttum, sem dæmi því að staðsetja byggingu, glugga og aðra þætti þannig að hægt sé að nýta ríkjandi vind- og sólaráttir til loftunar, hitunar og kælingar og þar með lágmarka notkun á kerfum innanhúss.

Að lokum er það vatnssparnaður sem er einn af lykilþáttum í LEED vottun, þá er horft til þess að safna regnvatni til að nýta inn á salerniskassa eða til vökvunar o.þ.h. 

Hvað varðar byggingarefnin þá fást auka stig í LEED fyrir það að nýta efni úr nágrenni við bygginguna en að öðru leyti eru það sömu efni sem ganga fyrir LEED og BREEAM vottanir og sömu gögn sem þarf að skila inn. 

Loftlagsmál


Orkuskipti

Bílar, vélar og tæki

  • Á árinu 2022 var heildarfjöldi bifreiða á vegum fyrirtækisins 33. Skipting bifreiða var að 39% var jarðefnaeldsneyti, 42% hybrid og 19% rafmagn.
  • Heildarhlutfall rafmagnsbíla fyrirtækisins var því 61% á móti bifreiðum knúnum jarðefnaeldsneyti. 
  • Á árinu 2022 var dísel lyftara skipt út fyrir rafmagnslyftara í vöruhúsinu Kjalarvogi. Fyrri lyftari var í notkun um 1.353 klst að meðaltali á ári og með því að skipta út fyrir rafmagn sparast 5.953 lítra af dísel á ári.

Hleðslustöðvar

BYKO hóf uppsetningu á hleðslustöðvum árið 2019 fyrir utan verslanir BYKO Breidd, Selfossi og Akureyri frá Orku náttúrunni sem ætluð er til að þjónusta viðskiptavini BYKO og til að styðja við rafbílaþróun á Íslandi.


BYKO hóf einnig uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir starfsfólk BYKO sem eru á eigin rafmagnsbílum. Starfsfólk hefur fengið að hlaða á vinnutíma sér að kostnaðarlausu en á miðju ári 2022 var sett tímaþak út frá áætlaðri meðalnotkun til og frá vinnu. Á árinu fjölgaði stöðvunum um 6 en það er í takt við aukningu rafbílaeigenda í starfsmannahópi BYKO. Stöðvarnar eru á starfsstöðvum BYKO í Breidd, Granda, Selfossi, Kjalarvogi og Selhellu og á öllum starfsstöðvum þar sem hlöður hafa verið settar upp er gert ráð fyrir stækkunarmöguleikum og því auðveldlega hægt að bæta við eftir þörfum til að hámarka nýtingu fjárfestinganna.

Áætlað er á árinu 2023 að setja upp stöðvar fyrir starfsfólk á Akureyri og Suðurnesjum.

Orkunotkun húsnæðis

BYKO hefur gripið til aðgerða til að draga úr notkun á hita og rafmagni. Framkvæmt er reglubundið eftirlit með loftræsingum, snjóbræðslu og hitablásurum til að koma í veg fyrir orkusóun og hægt sé að grípa til aðgerða sé þess þörf. Loftræstikerfi eru keyrð niður á nóttunni á flestum stöðum fyrirtækisins og útiljósin eru stýrð á sólúrs birtuskynjara sem slekkur á þeim þegar er orðið bjart.



Markmið er að draga úr rafmagnsnotkun og hitavatnsnotkun. Rafmagnsnotkun minnkaði um tæp 50.000 kWh milli ára en hitavatnsnotkunin jókst hins vegar um tæp 37.000 m3 og gæti ástæður verið kaldari vetur en árið áður og möguleg bilun í einum hitavatnsmæli vegna mikil fráviks milli ára.

Úrgangsmál

Terra sér um megnið af úrgangsmeðhöndlun eða um 90% fyrir BYKO og taka endurvinnsluleiðir mið af þeirri þjónustu sem Terra býður. Annar úrgangur fer til Sorpu eða Íslenska Gámafélagsins.

BYKO leggur áherslu á að auka úrgangsflokkun og draga úr urðun sem er þá afleiðing hringrásarhagkerfis. Allur úrgangstölur birtast í gegnum rafrænt umhverfisbókhald Klappa þar sem hægt er að fylgjast með, greina sóun og bregðast við með aðgerðum. 

BYKO leggur áherslu á fræðslu til starfsfólks um mikilvægi úrgangsflokkunar, hvernig hægt er að endurvinna og endurnýta ákveðna úrgangsflokka og stuðla þar með að hringrás.

Nánari greiningu á úrgangsmeðhöndlun má finna hér

Hringrásarhagkerfi

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með áherslum sem tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins er nokkuð margþætt og nær einnig til þess að endurmeta og endurskilgreina lífsgæði. Helstu aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu eru að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna. Á árinu 2022 var farið í samstarf við Plastplan en það er hönnunarstofa sem vinnur með hringrás plastefna. Plast sem fellur til í BYKO er sótt og framleitt úr því ný afurð. Sótt er plast sem nemur 1 m3  á mánuði sem gefur okkur þær niðurstöður að þessi endurvinnsla kemur í veg fyrir 520 kg af koltvísýrings útblæstri miðað við orkubrennslu í hverjum mánuði.

  • Lesa nánar

    Á árinu 2022 var farið í samstarf við Plastplan en það er hönnunarstofa sem vinnur með hringrás plastefna. Plast sem fellur til í BYKO er sótt og framleitt úr því ný afurð. Sótt er plast sem nemur 1 m3  á mánuði sem gefur okkur þær niðurstöður að þessi endurvinnsla kemur í veg fyrir 520 kg af koltvísýrings útblæstri miðað við orkubrennslu í hverjum mánuði. Fyrsta varan var framleidd á árinu,  þúsund stykki af blómapottum merktir 60 ára afmæli BYKO, en þeir voru kynntir á afmælishátíð BYKO þar sem fræðsla um hringrásarhagkerfið fór fram og viðskiptavinir gróðursettu blóm í pottinn og fengu að taka með sér heim.

    BYKO endurnýtti byggingarefni með því að styðja við nýsköpun við uppbyggingu gamla Gufunesbæjar með því að endurnota ýmis byggingarefni.

    BYKO Leiga. Leiga er sjálfbær í eðli sínu. Við fókusum á að vélar og tæki sem við leigjum út fái lengri líftíma, það þarf ekki henda gömlum eða biluðum tækjum, hugsum út frá hringrás með því að setja í viðgerð, endurnýta tækjahluta og bjóða viðskiptavinum að leigja tæki frekar en að kaupa. 

    Byggingarframkvæmdir spila gríðarlega mikið hlutverk þegar kemur að því að skapa hringrásarhagkerfi. Á Íslandi er byggingariðnaðurinn ábyrgur fyrir gríðarlegu magni af notkun auðlinda og myndun úrgangs. Við þurfum að gera róttæka breytingu á neysluvenjum okkar og framleiðsluaðferðum.


    Það sem hægt er að gera til að breyta þessu er að;

    • Hanna kerfi sem útrýmir úrgangi og mengun, þar sem úrgangur er afleiðing ákvarðana sem eru teknar á hönnunarstigi
    • Horfa á þetta með breyttu hugarfari alveg frá hönnunarstigi byggingarinnar
    • Vanda okkur að vörur og efni sem við framleiðum haldist inn í hagkerfinu og sé greið leið fyrir það að endurnota, setja í viðgerð eða endurvinnslu
    • Bera virðingu fyrir náttúrunni, því þar er enginn úrgangur. Þess vegna er mikilvægt að skila lífrænum úrgangi sem við tökum úr náttúrulegum kerfum aftur í hringrásina

Skógrækt

BYKO hefur frá árinu 1987 stundað skógrækt en þá hófu eigendur og starfsmenn árlega gróðursetningu á Drumboddsstöðum II í Biskupstungum. Frá þeim tíma og fram til 2007 voru gróðursettar um 130 þúsund trjáplantna og hefur á þessum tíma náttúrulegt birki breiðst mikið út af sjálfsdáðum. BYKO fór síðan í samstarf við Skógræktina haustið 2019 til að gera úttekt og meta bindingu skógarins og fór úttektin fram á árinu 2020 þar sem skóglendið var kortlagt og bindingin metin með viðurkenndum og vísindalegum hætti.

Samkvæmt niðurstöðu er binding mjög svipuð fram til 2030 og hún var 2020 eða að jafnaði 1200 tonn CO2 á ári. Ítarlega skýrslu um úttektina má nálgast hér;

  • Lesa nánar

    Gróðursetning hafði ekki verið framkvæmd síðan árið 2007 og stóð til að endurvekja þá hefð árið 2020 með eigendum, starfsfólki og fjölskyldum þeirra fyrst og fremst út frá gleðilegum gildum sem einkenndu þessar árlegu ferðir en um leið í þeirri viðleitni að auka bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu. Vegna Covid-19 hafði ekki gefist kostur að fara í slíka ferð, hvorki árið 2020, 2021 né 2022. Tekið var þá á það ráð að fá Skógræktina til að sjá um gróðursetninguna árin 2021 og 2022 til að standa við þau markmið að auka kolefnisbindinguna.


    Árið 2021 voru gróðursettar 3270 plöntur. Tegundaskiptingin var 1600 stafafurur, 1000 sitkagreni og 670 birki. Tegundum var blandað af bestu getu til þess að mynda skemmtilegan blandskóg og þetta eru tegundir sem hjálpa hvor annarri í uppvextinum

    Árið 2022 voru gróðursettar 3570 plöntur. Tegundaskiptingin var 1920 sitkagreni og 1650 birki. Tegundum var blandað í reitina. Svæðið var allt jarðunnið með TTS plöntuherfi og líka fyrir næsta ár sem er um 1,5 hektari.


    Til stendur að grysja skóginn árið 2023.


    Á árinu 2022 var farið í samstarf við Plastplan en það er hönnunarstofa sem vinnur með hringrás plastefna. Plast sem fellur til í BYKO er sótt og framleitt úr því ný afurð. Sótt er plast sem nemur 1 m3  á mánuði sem gefur okkur þær niðurstöður að þessi endurvinnsla kemur í veg fyrir 520 kg af koltvísýrings útblæstri miðað við orkubrennslu í hverjum mánuði. Fyrsta varan var framleidd á árinu,  þúsund stykki af blómapottum merktir 60 ára afmæli BYKO, en þeir voru kynntir á afmælishátíð BYKO þar sem fræðsla um hringrásarhagkerfið fór fram og viðskiptavinir gróðursettu blóm í pottinn og fengu að taka með sér heim.

    BYKO endurnýtti byggingarefni með því að styðja við nýsköpun við uppbyggingu gamla Gufunesbæjar með því að endurnota ýmis byggingarefni.

    BYKO Leiga.  Leiga er sjálfbær í eðli sínu. Við fókusum á að vélar og tæki sem við leigjum út fái lengri líftíma, það þarf ekki henda gömlum eða biluðum tækjum, hugsum út frá hringrás með því að setja í viðgerð, endurnýta tækjahluta og bjóða viðskiptavinum að leigja tæki frekar en að kaupa. 

Share by: