Umhverfisþættir

Umhverfisþættir


LOFTSLAGSBREYTINGAR

Loftslagsbreytingar hafa óneitanlega mikil áhrif á rekstur BYKO og því leggjum við áherslu á mótvægisaðgerðir við loftslagsbreytingum auk aðlögunar að loftslagsbreytingum.


Hér til hliðar er tafla með losunartölum þar sem skipt er í þrjú umföng samkvæmt GHG Protocol. Allar losunartölur eru miðaðar við losunarstuðla frá Klöppum, að undanskildum vöruflutningum en þar koma losunartölur beint frá viðeigandi þjónustuaðilum.

Tafla: Losun umfangs 1, 2 & 3 (CO₂e ígildi í tonnum)

Umfang 1:

Felur í sér beina losun gróðurhúsalofttegunda. Hjá BYKO er eina beina losunin út frá jarðefnaeldsneyti sem er notað fyrir eigin vöruflutninga og bílferðir starfsfólks.


Umfang 2:

Felur í sér óbeina losun sem kemur frá orkunotkun fyrirtækisins. Hjá BYKO er raforka og upphitun tekin saman frá öllum starfsstöðvum.


Umfang 3:

Felur í sér óbeina losun og hefur BYKO tekið inn flugferðir starfsfólks, utanaðkomandi vöruflutninga og meðhöndlun úrgangs. 


Önnur veruleg losun:

Önnur veruleg losun á sér ekki stað, það á sér ekki stað nein losun á ósoneyðandi efnum. BYKO heldur ekki saman upplýsingum um losun á köfnunarefnisoxíð (NOx), brennisteinsoxíð (SOx) eða öðrum lofttegundum þar sem fyrirtækið hefur enga framleiðsluferla sem losa NOx eða SOx.. Timburskipið sem BYKO er með á leigu notar gasolíu (Marin Gasoil) með brennisteinsmagni undir 0,1%. Losun í opna viðtaka svo sem vatn eða jarðveg er ekki viðeigandi og allt frárennsli er tengt við skólpkerfi viðkomandi sveitarfélags.

Mesta losun BYKO fellur undir umfang 3 eins og sjá má í kökuritinu og töflunni til hliðar. Stærsta áskorun BYKO varðandi loftslagsbreytingar er innbyggt kolefnisspor í byggingarvörum, þ.e. kolefnislosun við framleiðslu byggingarvara. Þessi losun fellur undir umfang 3 en ekki hefur enn verið náð utan um mælingar á henni. Því er tækifæri til þess að vinna að því og í kjölfarið setja markviss markmið til þess að minnka þá losun. 


Meðal þess sem hægt er að gera til að minnka losun af innbyggðu kolefnisspori í vöruframboði er að finna og bjóða vörur með minna kolefnisspor en þær vörur sem eru ráðandi á markaðnum í dag. Þær vörur sem eru með hátt innbyggt kolefnisspor eru t.d. steypa og múrvörur, álklæðning og einangrun eins og steinull. 

Tækifæri BYKO felast meðal annars í aukinni áherslu á timbur í byggingum, fjölbreyttu úrvali klæðninga með minna kolefnisspori og íslenskri steinull sem er eina steinullin í heiminum sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum (vatnsafli). 

Áhætta og tækifæri sökum loftslagsbreytinga

Hlutfall kolefnislosun BYKO eftir umföngum

Umföng

Vöruflutningar eru flutningar til landsins og innanlandsflutningar. Vöruflutningar til landsins eru sjóflutningar en þar nýtir BYKO bæði Samskip og Eimskip en er einnig með leiguskip sem flytur timbur og járn frá Lettlandi. Tölur frá Eimskip eru flutningarmagnstölur til landsins og yfirlit yfir losun en tölur Samskipa eru skipaflutningar með forflutningum ásamt yfirlit yfir losun. Tölur fyrir leiguskipið eru reiknaðar út frá greiddu eldsneytisgjaldi sem þarf ekki að endurspegla nákvæma eldsneytisnotkun. Vöruflutningar innanlands eru flutningar á milli starfstöðva BYKO. BYKO mælir ekki ígilda vegna lífrænnar losunar. Umfang BYKO eru hraðsendingar til landsins með flugi sem og flutningar frá starfsstöðvum BYKO til viðskiptavina. 


Heildarlosun meðhöndlun úrgangs námu 79,9  CO₂e ígildi í tonnum árið 2023. Þetta er töluverð minnkun frá fyrri árum en vegna nýrra hringrásarhagkerfislaga var úrgangur fluttur erlendis í orkuvinnslu að auknu mæli. Þarf af leiðandi lækkaði losun við meðhöndlun úrgangs verulega. 

Tafla: Losun fyrir umfang 1, 2 & 3 niðurbrotið (CO₂e ígildi í tonnum)

*Tölur frá 2022 og 2021 hafa verið uppfærðar m.v. uppfærðan álestur í Klöppum ** Losun af völdum meðhöndlun úrgangs hefur verið uppfærð fyrir fyrri ár skv. tölum úr Klöppum til að halda samræmi milli ára. 

Svansvottaðir gluggar

BYKO hefur nú fyrst framleiðenda hlotið Svansvottun á gluggum sem framleiddir eru sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. Markmið Svansins með slíkri vottun er að auka notkun á orkusparandi gluggum og útihurðum sem standast strangar kröfur varðandi efnisnotkun og framleiðsluferli og valda litlum áhrifum á umhverfið.


BYKO hefur framleitt glugga og hurðir í 32 ár og þessi viðbót er rökrétt framhald þeirrar stefnu fyrirtækisins að bjóða ávallt bestu mögulegu vöruna á markaðnum á hverjum tíma. Ferlið er búið að vera langt og strangt því uppfylla þurfti fjölmörg skilyrði um efni og aðferðir við framleiðsluna með mælingum á rannsóknarstofu, útreikningum, efnisgreiningum o.fl. 


Svansvottuðu gluggarnir eru virkniprófaðir, þeir hafa langan endingartíma og valda hverfandi loftslagsáhrifum, þökk sé litlu orkutapi. Þeim fylgja nákvæmar leiðbeiningar um meðferð, allt frá afhendingu til notkunar og flokkunar að líftíma þeirra liðnum. Fyrst um sinn mun úrvalið miðast við álklædda timburglugga, 75 mm þykk opnanleg fög og hurðir til að ná því U-gildi sem vottunin krefst.

„Þetta samræmist okkar vegferð í sjálfbærnimálum og með þessu stóra skrefi erum við að senda skýr skilaboð um að BYKO er markvisst að vinna í því að draga úr kolefnisspori sínu. Svanurinn er áreiðanlegt, norrænt umhverfismerki sem allir þekkja og er leiðandi á sínu sviði á heimsvísu. Svansvottunin felur í sér lífsferilsgreiningu og staðfestingu á gæðum vörunnar, m.a. út frá líftímasjónarmiði og áhrifum hennar á umhverfi og heilsu fólks.“ Kjartan Long, verkefnastjóri.

Orkunotkun

Byggingar eru ábyrgar fyrir um 40% orkunotkun á heimsvísu. Sem hluti af virðiskeðju mannvirkja vill BYKO stuðla að betri framtíð með því að bjóða markaðnum vistvæn byggingarefni og hámarka hlutfall endurnýjanlegar orku í rekstri sínum.

Eldsneytisnotkun BYKO minnkaði töluvert á milli 2022 og 2023 og á móti jókst rafmagnsnotkun. Samkvæmt tölum frá Klöppum minnkaði eldsneytisnotkun um 14.2% og rafmagnsnotkun jókst um og 10,8%. 

Tafla: Heildar orkunotkun BYKO

Hleðslustöðvar

BYKO hvetur og styður starfsfólk sitt í því að nota vistvænni samgöngur og einn hluti af því er að setja upp hleðslustöðvar. Starfsfólki býðst að hlaða sér að kostnaðarlausu 3 klst. á dag en það er sá meðaltalstími sem á að duga í akstri frá heimili til og frá vinnu. Fyrstu stöðvar voru settar upp árið 2019 og hefur BYKO fylgt þeirri rafbílaþróun sem hefur átt sér stað síðustu árin. BYKO hefur nú sett upp 20 hleðslustöðvar fyrir starfsfólk en þær eru dreifðar fyrir utan starfsstöðvar í Breidd, Granda, vöruhúsi Kjalarvogi, BYKO Leigu Selhellu og Selfossi.


Fjöldi starfsfólks sem hefur skipt bifreiðum sínum úr jarðefnaeldsneyti yfir í rafmagn fer sífellt fjölgandi sem skýrir aukningu í rafmagnsnotkun hleðslustöðva. Fleiri eru að nota stöðvarnar svo nýtingin er hærri en árin á undan. Heildarnotkun starfsfólks á árinu voru 75.413 kWh.

Rafmagnsnotkun hleðslustöðva fyrir starfsfólk

Hringrásarhagkerfi & úrgangur

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með áherslum sem tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins er nokkuð margþætt og nær einnig til þess að endurmeta og endurskilgreina lífsgæði. Helstu aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu eru að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna

BYKO Leiga


BYKO starfrækir öfluga leigustarfsemi sem á sér langa sögu sem má rekja allt til 1988. Mikil þróun hefur átt sér stað í starfseminni í takt við sjálfbærniáherslur fyrirtækisins, en leiga er sjálfbær í eðli sínu og BYKO vill vera leiðandi fyrir markaðinn.


BYKO Leiga leggur í dag áherslu á að selja eða leigja tæki og tól og jafnframt selja úrval aukahluta fyrir rafmagnsverkfæri, vera með gott úrval af festingum, þéttiefnum og vöruflokkum sem snúa að fagaðilanum. Verkefni leigunnar í BYKO er að fræða og upplýsa, í þeirri von að með auknum umhverfisáherslum, aukinni umræðu um nýtingu og hringrásarhagkerfið að fleiri og fleiri muni sjá kosti þess að leigja, en á sama tíma er það stórt verkefni innan BYKO að halda áfram að gera leigu aðgengilegri og auðveldari fyrir fólk.

Úrgangsgreining


Árið 2022 framkvæmdi PureNorth umfangsmikla úrgangsgreiningu á starfsstöðvum BYKO. Niðurstöður greiningarinnar voru kynntar snemma árs 2023 og í kjölfarið var hafist handa við úrbætur á ýmsum atriðum sem komu fram í greiningunni. Þar má nefna að losunum úr gámum var breytt úr reglubundinni losun í losun eftir þörfum. Bætt var úr öllum merkingum og eru nú komnar samræmdar FENÚR merkingar á allar sorptunnur fyrirtækisins. Pappabollar voru fjarlægður úr öllum kaffistofum starfsmanna og á þeim stöðum sem hægt var að bjóða upp á margnota bolla. Endurvinnsla málma og timburs var færð til Furu. Áframhaldandi vinna við úrbætur mun eiga sér stað á næstu árum, meðal annars þarf að meta hvort hægt sé að koma plasti í meiri hringrás og endurskoða reglulega aðila sem taka við sorpi til endurvinnslu.

Meðhöndlun úrgangs


Terra sér um megnið af úrgangsmeðhöndlun eða um 90% fyrir BYKO og taka endurvinnsluleiðir mið af þeirri þjónustu sem Terra býður. Annar úrgangur fer til Furu og Íslenska Gámafélagsins. BYKO leggur áherslu á að auka úrgangsflokkun og draga úr urðun sem er þá afleiðing hringrásarhagkerfis.


Allur úrgangstölur birtast í gegnum rafrænt umhverfisbókhald Klappa þar sem hægt er að fylgjast með, greina sóun og bregðast við með aðgerðum. BYKO leggur áherslu á fræðslu til starfsfólks um mikilvægi úrgangsflokkunar, hvernig hægt er að endurvinna og endurnýta ákveðna úrgangsflokka og stuðla þar með að hringrás. Yfirlit yfir heildarúrgang í kg má sjá í meðfylgjandi töflu, en BYKO hefur tekist að minnka heildarmagn úrgangs milli ára. BYKO mælir ekki CO₂ ígilda vegna lífrænnar losunar á CO₂.


Samkvæmt tölum frá Klöppum af flokkaða úrganginum fór hluti í förgun, þ.e. urðun eða brennslu. Hlutfall úrgangs sem fór til endurvinnslu var um 54,7% og var það bæting frá árinu áður um 10,8%. Samkvæmt tölum frá Klöppum var 68,9% af úrganginum flokkaður og 31,1% óflokkaður. Þetta er ekki sú þróun sem við vildum sjá en hlutfallið frá fyrra ári var 75,1% flokkað og 24,9% óflokkað. Með áframhaldandi vinnu úr úrgangsgreiningu sem lýst var hér að framan er vonast til að auka flokkunarhlutfall á næstu árum. Samkvæmt tölum frá Klöppum er losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá meðhöndlun úrgangs 80,1 tonn CO₂.

Heildarmagn úrgangs og niðurbrot eftir úrgangsflokkum (kg)

Tafla: Heildarlosun úrgangs

Efnisnotkun

Gerð er grein fyrir efnisnotkun í daglegri starfsemi BYKO en vörur til endursölu eru ekki taldar með.


Prentefni

Allt prentefni var keypt frá prentsmiðjunni Litla Prent sem er Svansvottuð prentsmiðja.

Ræstingarefni

Ræstingar eru aðkeypt þjónusta fyrir verslanir og skrifstofur BYKO og er leitast eftir að þjónustuaðilar séu Svansvottaðir eða nota umhverfisvæn ræstiefni.

Plastnotkun

BYKO hefur unnið að minni plastnotkun í plöstun vörubretta frá því árið 2021. Árið 2023 tóku 2 starfstöðvar til viðbótar upp endurunnu plastfilmurnar, en notkun þeirra er nú 10% af allri plastfilmunotkun fyrirtækisins.

Líffræðilegur fjölbreytileiki

BYKO getur haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika með því að huga að vistvænu vöruframboði þar sem boðið er upp á úrval af umhverfisvottuðum vörum

Vistvænt vöruframboð

Í gegnum umhverfisstefnu fyrirtækisins leggur BYKO áherslu á að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á vistvænt vöruframboð í öllum vöruflokkum. Samhliða þessu hefur verið lögð mikil áhersla á að skapa þekkingu á vistvottunarkerfum fyrir byggingar til þess að mæta auknum kröfum markaðarins, veita ráðgjöf og aðstoða viðskiptavini sem vilja byggja vistvænt.


BYKO getur boðið viðskiptavinum sínum vörur í öllum vöruflokkum sem henta til bygginga sem votta á samkvæmt Svaninum, BREEAM og LEED vottunarkerfunum og koma snemma að hönnunarferlinu með þekkingu á hentugum lausnum fyrir vistvænar byggingar.


BYKO ber ábyrgð á að koma upplýsingum til neytenda á framfæri. Hér á heimasíðu BYKO er hægt að finna hluta af þeim vottuðu vörum sem BYKO býður upp á. Þar eru meðal annars vörur sem bera Svansvottun eða eru leyfilegar í Svansvottaðar byggingar ásamt þeim vörum sem henta í BREEAM vottunarferlið. Þegar smellt er á vöru má finna hvort varan sé vottuð, rekjanleg eða beri önnur gögn sem nýtast í viðkomandi vistvottunarferli. Þar má ýmist finna EPD umhverfisyfirlýsingu, VOC vottun eða FSC vottun.


Unnið hefur verið að því að gera þessar umhverfisupplýsingar aðgengilegar á vef og mun sú vinna halda áfram af krafti ásamt því að auka sýnileika þeirra í verslunum til að einfalda viðskiptavinum val og vistvænum valkostum, hlutverk BYKO er að vera skýr valkostur viðskiptavina þegar kemur að vistvænum lausnum.

Rekjanleiki timburs

Til þess að timbur sé samþykkt í Svansvottaðar byggingar og uppfylli skilyrði til samþykktar í BREEAM og LEED vottunarkerfin þarf það að koma úr sjálfbærri skógrækt og hafa rekjanleika. Vottanir sem staðfesta slíkt eru FSC eða Forest Stewardship Council og PEFC eða Programme for the Endorsement of Forest Certification. Vottun á rekjanleika felur í sér að allir milliliðir í virðiskeðjunni eru vottaðir og þannig sé hægt að rekja uppruna timbursins alla leið frá ræktun til söluaðila. Allt timbur sem BYKO kaupir kemur úr sjálfbærri skógrækt og er með rekjanleika vottun. 


Árið 2023 náðist sá áfangi að fá Chain of Custody vottun, þ.e. rekjanleikavottun frá skógi til vöru í hillu í verslunum BYKO. 

Skógrækt

BYKO hefur frá árinu 1987 stundað skógrækt en þá hófu eigendur og starfsmenn árlega gróðursetningu á Drumboddsstöðum II í Biskupstungum. Frá þeim tíma og fram til 2007 voru gróðursettar um 130 þúsund trjáplantna og hefur á þessum tíma náttúrulegt birki breiðst mikið út af sjálfsdáðum. BYKO fór síðan í samstarf við Skógræktina haustið 2019 til að gera úttekt og meta bindingu skógarins og fór úttektin fram á árinu 2020 þar sem skóglendið var kortlagt og bindingin metin með viðurkenndum og vísindalegum hætti. Samkvæmt niðurstöðu er binding mjög svipuð fram til 2030 og hún var 2020 eða að jafnaði 1200 tonn CO₂ á ári. Skógræktin sá um að gróðursetja 6840 plöntur til viðbótar í skóginum árin 2021 og 2022. Tegundum var blandað af bestu getu til að mynda skemmtilegan blandskóg og tryggja líffræðilegan fjölbreytileika, en tegundaskiptingin var 2920 sitkagreni, 2320 birki og 1600 stafafurur. BYKO er nú í ferli að skoða fjárfestingamöguleika í vottuðum kolefniseiningum og því hefur öll áframhaldandi vinna við BYKO skóginn verið sett á bið.

Nýjar vottaðar höfuðstöðvar BYKO

Til þess að öðlast enn meiri þekkingu á virkni BREEAM vottunarkerfisins og ferlinu sem fylgir slíkri vottun var tekin ákvörðun um að nýjar höfuðstöðvar BYKO á Breiddarsvæðinu yrðu vottaðar BREEAM Excellent. Í byggingu er 5 hæða hús við hlið Timburverslunar sem hýsa mun sýningarsal timbur- og sérlausna ásamt skrifstofum og þar munu móðurfélagið Norvik ásamt Smáragarði einnig hafa aðsetur.


Kjallari og lyftuhús byggingarinnar verður steypt, gólf og veggir úr krosslímdum timbureiningum og önnur efni eru rýnd með tilliti til krafna BREEAM ásamt því að lýsing og loftræsting er hönnuð í takt við kröfur BREEAM

Share by: